LODDARI / THE FRAUD
A solo show. Nov. 18th - Dec. 9th 2017
Margrét´s third solo exhibition – LODDARI – at Listamenn Gallery in Reykjavík. The exhibition consisted of glass sculptures – so called scenes – photographs and text works.
In conjunction with the exhibition, Margrét published the book ORÐIÐ Á GÖTUNNI (WORD ON THE STREET) – a collection of phrases that she overheard from passersby and collected in the years 2009 – 2013.
Ragnar Kjartansson wrote a text for the exhibition:
Margrét Bjarnadóttir er marglistamaður. Hún er skáld, myndlistarmaður og danshöfundur. Hún „Maggar“ tilveruna. Það er enginn munur á verkum hennar og persónu hennar. Titrandi varlegur efi, mikilmennskubrjálæði og sjálfshatur spila stöðugt sturlað djasslag í hausnum á þessari prúðu manneskju. Já, á yfirborðinu er Margrét prúð eins og við sjáum á titilmyndinni af henni sem barni. Mynd sem er tekin á augnablikinu þar sem hún uppgötvar loddarann í sjálfri sér.
Þessi mynd lýsir einhverjum dularfullum sannleika um listamanninn, fullan af ásetningi og óvissu. Undir niðri er Margrét nefnilega kolklikkaður dólgur með nauðasaklausan ásetning. Það er þessi spenna sem gerir það sem hún segir, gerir og sendir frá sér áhugavert. Margrét er alltaf að lesa heiminn og er áhugasöm um hið vandræðalega og viðkvæma í honum – og sannleikann sem afhjúpast stundum skyndilega. Það getur til dæmis verið í efnum, orðum eða tóni og líkamlegu atgervi fólks sem verður á vegi hennar. Hún sér hvarvetna í umhverfi sínu tjáningu á hennar eigin innra lífi um leið og hún fagnar titrandi innra lífi annarra.
Enginn einn miðill er hennar miðill, þvert á móti virðist hún njóta þess að stíga inn á svið sem eru henni ókunnug og fikra sig áfram á ferskum velli, ómenguðum af fyrri reynslu og tengingum - hvort sem það er í keramik, trommuleik eða nú síðast glerskurði. Hún er innilegur amateur, í yfirfærðri og upprunalegri merkingu orðsins – „sá sem elskar”. Á þessari sýningu notar hún nýlærðar hreyfingar til að skera út angurværar senur úr gleri, ljósbroti og orðum. Burtséð frá miðlum og útfærslum er lykilatriði í öllum hennar verkum kannski eftirtektin sjálf, að vera vakandi fyrir augnablikum, aðstæðum, tilfinningum og hugsunum sem snerta einhvern streng, velta þeim svo um, gjarnan árum saman, og koma þeim til skila í nýju samhengi.
Það má greinilega sjá þetta á safni hennar af setningum sem hún hefur heyrt af tilviljun á förnum vegi í gegnum árin. Setningu eins og „eða bara skilja hann eftir í gryfju eða eitthvað“ heyrði hún útundan sér fyrir átta árum og dregur nú fram. Tómi strætisvagninn sem hún sá fara leiðar sinnar um bæinn og á stendur „Er ekki leið“ er eins og maggísk skrúðganga; sorgleg, ljóðræn, sjálfstæð og fyndin.
Ragnar Kjartansson