NIÐURSTAÐA Í MÁLIÐ
2013
Niðurstaða í málið
Ef maður ber saman snjógalla og sjóngalla kemur ýmislegt í ljós. Sjóngalli getur verið meðfæddur en snjógalli ekki. Snjógalli er afar gagnlegur í fannfergi og stormi en sjóngalli getur beinlínis verið hættulegur við þær aðstæður. Sjóngalli er óáþreifanlegur, ólíkt snjógalla. Sjóngalli takmarkast við augun, snjógalli umlykur allan líkamann. Þegar maður skoðar málið kemur í ljós að snjógalli og sjóngalli eiga í raun ekkert sameiginlegt, fyrir utan að vera karlkyns nafnorð og innihalda sömu bókstafina. Ég reyni að sameina fyrirbærin og tek ljósmynd af föður mínum – sem er bæði fjarsýnn og nærsýnn – í snjógalla. Þetta er fyrsta ljósmynd sinnar tegundar í heiminum.
Niðurstaða í málið birtist fyrst í Jólabók Blekfjelagsins (félag Meistaranema í Ritlist við Háskóla Íslands) og síðar í „Nestisboxi“ Lestrarhátíðar í Reykjavík.